PÁLL ÓSKAR „RAUÐA BOXIГ

3 PLÖTUR Í PAKKA

2014

„Seif“ (1996) „Deep Inside“ (1999) „Allt fyrir ástina“ (2007)

Útgáfudagur 12. Nóv 2013

Ókei, fólk.  Allar gömlu plöturnar mínar hafa verið ófáanlegar á föstu formi í fjölda ára.  Nú ætla ég að gefa þær út aftur í sérstökum boxum ásamt aukalögum sem aldrei hafa heyrst.  Ég er búinn að fara í gegnum gömul segulbönd, DAT-spólur, kassettur og demó og bæti helsta góðgætinu við sem aukalögum á öllum plötunum.

„Rauða Boxið“ inniheldur þrjár plötur.   „Seif“ (1996) hefur elst ótrúlega vel.  Ég er sjálfur hissa á því hvað þetta 90‘s dót er að hljóma flott.  Lög eins og „Stanslaust stuð“, „Bundinn fastur“ og „Jafnvel þó við þekkjumst ekki neitt“ bera vitni um það.

„Deep Inside“ (1999) er eina platan á ferli mínum sem seldist ekki sem skyldi, þótt hún hafi hlotið góða dóma gagnrýnenda.  Ég var brjálaður í mörg ár útaf þessu, en nú þegar ég hef hlustað á hana aftur þá heyri ég að það var alger óþarfi.  „Make up your mind“ er t.d sjúklega flott og þétt diskólag.  Dæmið bara sjálf.

„Allt fyrir ástina“ (2007) er svo platan sem breytti lífi mínu.  Þetta er besta poppplata sem ég hef komið nálægt.  Samstarfið með Örlygi Smára, Togga og Bjarka gaf af sér yndislega hittara eins og „Allt fyrir ástina“, „Betra Líf“ og „Þú komst við hjartað í mér“.

Dæmi um aukalög sem fylgja þessum plötum er hið óútgefna „Taktu við mér“ eftir Trausta Haraldsson, „Dr. Love“ lagið úr samnefndum útvarpsþáttum, auk súperhittara á borð við „Gordjöss“ og „La Dolce Vita“.

Útgáfa og dreifing: POP ehf. (Paul Oscar Productions)

PÁLL ÓSKAR „BLÁA BOXIГ

3 PLÖTUR Í PAKKA

2014

„Palli“ (1995) „Stereo“ (1998) „Ef ég sofna ekki í nótt“ (2001)

Útgáfudagur 12. Nóv 2013

Jæja, elskurnar.  Allar gömlu plöturnar mínar hafa verið ófáanlegar á föstu formi í fjölda ára.  Nú ætla ég að gefa þær út aftur í sérstökum boxum ásamt aukalögum sem aldrei hafa heyrst.  Ég er búinn að fara í gegnum gömul segulbönd, DAT-spólur, kassettur og demó og bæti helsta góðgætinu við sem aukalögum á öllum plötunum.

„Bláa Boxið“ inniheldur þrjár plötur.  Ballöðuplatan „Palli“ (1995) hljómar jafn vel í dag og hún gerði fyrir 18 árum síðan, enda var þar valinn maður í hverju rúmi.  Ég er ennþá ánægður með lög eins og „Sjáumst aftur“ og „Lose Again“.

Svo var ég nú einu sinni í hljómsveit sem hét Casino, þar sem Samúel Jón Samúelsson var aðaldriffjöðurin. Það var sjúklega gaman að gera plötuna „Stereo“ (1998) þar sem við tókum ofan hattinn fyrir lagahöfundum eins og Burt Bacharach, Jimmy Webb og Henry Mancini.  Þessi plata mun fá þig til að þrífa heimilið þitt mun hraðar.

Síðasta platan í þessu boxi er „Ef ég sofna ekki í nótt“ (2001) sem ég gerði ásamt Moniku hörpuleikara.  Þar standa uppúr lagasmíðar hins kornunga Hreiðars Inga Þorsteinssonar.  Þessi plata er alger nauðsyn eftir erfiðan vinnudag, því útkoman er eins og að fara í heitt bað og láta nudda sig á meðan.

Dæmi um aukalög sem fylgja þessum plötum eru „Góða nótt“ ásamt djasskvartett Kristjönu Stefáns, „I say a little prayer“ tekið upp á tónleikum með Casino, og yndisleg tónleikaupptaka af „Dalakofanum“ með mér og Moniku.

Útgáfa og dreifing: POP ehf. (Paul Oscar Productions)

LA DOLCE VITA

2011

La Dolce Vita í flutningi hins eina sanna Páls Óskars er Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 2011. Páll Óskar tók þetta verkefni að sér á vormánuðum 2011. Höfundur lags er Trausti Haraldsson og útsetning er í höndum Örlygs Smára í Poppvélinni en skemmtilegt er frá því að segja að Palli söng lagið inn í stúdiói í New York og er ekki vitað til að áður hafi Þjóðhátíðarlag verið sungið inn á erlendri grund.

PÁLL ÓSKAR OG SINFÓ

2011

Páll Óskar var með þeim allra fyrstu til að halda sannkallaða stórtónleika í Hörpunni, þegar húsið vorið 2011. Hélt hann þar einkar glæsilega ferilstónleika með bestu hljómsveit landsins, Sinfóníuhljómsveit Íslands. Má með sanni segja að þessi þrenning; Páll Óskar, Sinfó og Harpan hafi getið af sér einstakan viðburð og ógleymanlegir stundir hjá þúsundum gesta. Fimm tónleikar seldust upp og miklu færri komust að en vildu. Með plötunni hér á Tónlist.is fylgja þrjú aukalög.

01 TF-Stuð
02 Partídýr
03 Partí fyrir tvo
04 Betra líf
05 Minn hinsti dans
06 Ó, hvílíkt frelsi
07 Söngur um lífið
08 Anyone Who Had A Heart
09 Góða nótt
10 Ást við fyrstu sýn
11 Stanslaust stuð
12 Allt fyrir ástina
13 International
14 Ljúfa líf
15 Er þetta ást?
16 Gordjöss
17 Yndislegt líf
18 Ég er eins og ég er
19 Forleikur (aukalag)
20 Jafnvel þó við þekkjumst ekki neitt (aukalag)
21 Þú komst við hjartað í mér (aukalag)

UPPKLAPP

2011

Þetta er safn af lögum með Páli Óskari sem hafa ekki komið út áður eða aðeins sem smáskífur.

01 Þú komst við hjartað í mér (ásamt Moniku)
02 Söngur um lífið (Minningartónleikar Rúnars Júlíussonar)
03 Reykjavíkurnætur (Sumarlag Fm957 árið 2011)
04 La Dolce Vita (Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 2011)
05 Gordjöss (Remix)
06 Betra líf (Remix)
07 Það geta ekki allir verið gordjöss
08 La Dolce Vita (Lopapeysuremix)
09 Ofar regnabogahæðum (Over The Rainbow)

GORDJÖSS (REMIX)

2010

Hér er endurhljóðblöndun eða remix af hinu geysivinsæla lagi „Það geta ekki allir verið gordjöss“ sem Páll Óskar syngur á diskóbarnaplötunni Diskóeyjan. Þessi útgáfa er aðeins klúbbavænni og meira fullorðins í meðförum Örlygs Smára. Lag og texti er eftir Braga Valdimar Skúlason. Mælt er með að hlustandinn standi fyrir framan spegil og syngi textann með hástöfum fyrir sjálfann sig.

DISKÓEYJAN

2010

Óhætt er að segja að hljómskífan Diskóeyjan í flutningi Prófessorsins og Memfismafíunnar hafi valdið straumhvörfum á íslenska diskó- og fönkbarnaplötumarkaðnum. Diskóeyjan er hugarfóstur þeirra Braga Valdimars Skúlasonar, Óttars Proppé og Guðm. Kristins Jónssonar (Kidda Hjálms), sem fá til liðs við sig hóp valinkunnara og ástsælla listamanna til að gæða eyjuna lífi. Lög og textar eru eftir Braga Valdimar sem sendi frá sér Barnaplötuna Gillligill ásamt Memfismafíunni fyrir tveimur árum. Óttarr bregður sér hlutverk gamals kunningja af íslensku tónlistarsenunni, Prófessorsins, en hann er mörgum að góðu kunnur úr sveitinni Funkstrasse. Kiddi sá um að taka herlegheitin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði. Prófessorinn rekur fágunarskóla fyrir börn á Diskóeyju við Diskóflóa. Þar kennir hann þeim ýmsa góða siði og fræðir þau um gildi fönksins ásamt því að gefa gagnleg ráð um klæðaburð og líkamstjáningu. Þangað eru systkinin Daníel og Rut send og sækist þeim námið vel. Það setur hins vegar strik í reikninginn þegar Ljóti kallinn birtist með tilheyrandi mjaðmasveiflum og hyggst breyta Fágunarskólanum í tehús. Allt fer þó þokkalega að lokum. Með helstu hlutverk fara Óttarr Proppé, sem er prófessorinn; Páll Óskar Hjálmtýsson sem leikur ljóta kallinn; Sigríður Thorlacius og Unnsteinn úr Retro Stefson, sem leika Daníel og Rut – og Sigtryggur Baldursson sem fer með hlutverk söguúlfsins. Sigurður Guðmundsson syngur hlutverk sólkonungsins og Magga Stína er gæludvergur prófessorsins. Platan inniheldur meðal annars ofursmellinn „Það geta ekki allir verið gordjöss“, sem tröllriðið hefur útvarpsrásum, diskótekum og ípóðum þjóðarinnar undanfarin ár.

Minningartónleikar Rúnars Júlíussonar

2009

Á þessum minningartónleikum, um Rúnar Júlíusson árið 2009, söng Páll Óskar tvö lög. Söngur um lífið og Rokk og ról. Fyrrnefnda lagið var mikill stórsmellur í meðförum Palla.

SILFURSAFNIÐ

2008

Hér eru saman komin öll bestu lögin af plötum Páls Óskars, bæði sólóplötum og samstarfsverkefnum, frá árunum 1991 til 2008. Platan inniheldur 43 lög en fyrstu 19 lögin eru stuð- og danslögin en hin 24 eru bæði rómantísku lögin, lög úr söngleikjum og samstarfsverkefnin með Milljónamæringunum, Casino og Moniku Abendroth. Hér eru einnig lög að koma út fyrsta skipti, þ.á.m. Gay Pride lagið „Ég er eins og ég er“ og „Lilja“ eftir Magnús Þór.

01 TF-Stuð
02 Partídýr
03 Ljúfa líf
04 Bundinn fastur
05 Minn hinsti dans
06 Horfðu á mig
07 Stanslaust stuð
08 Jafnvel þó við þekkjumst ekki neitt
09 No One To Love
10 Deep Inside (Remix)
11 Hold You (feat. GusGus)
12 Allt fyrir ástina
13 International
14 Er þetta ást?
15 Þú komst við hjartað í mér
16 Betra líf
17 Ég er eins og ég er
18 Sama hvar þú ert
19 Ástin dugir
20 Ást við fyrstu sýn
21 Yndislegt líf
22 Negro José
23 Cuanto Le Gusta
24 Up Up and Away
25 Barbarella
26 Taumlaus Transi
27 Nú held ég heim
28 Ó. hvílíkt frelsi
29 Sjáumst aftur
30 Anyone who had a Heart
31 Söngur Heródesar
32 Ræ ég við róður minn
33 Lose Again
34 The Look Of Love
35 Ensk manvísa frá 14. öld
36 Eins og er
37 Nótt
38 Lilja
39 Þeim vörum sem ég kyssti
40 Með bæninni kemur ljósið
41 Næturljóð
42 A Spaceman Came Travelling
43 Góða nótt

ALLT FYRIR ÁSTINA

2007

Allt fyrir ástina er fyrsta dansplata Páls Óskars frá árinu 1999. Platan inniheldur m.a. smellina Allt fyrir ástina og International. Upptökustjórn var í höndum Páls og Örlygs Smára fyrir utan 3 lög. Toggi og Bjarki eiga lögin „Partí fyrir tvo“ og „Þú komst við hjartað í mér“ og Svala Björgvins leggur til frábært lag, sem heitir „Komdu til mín“. Trausti Haraldsson, sem m.a. gerði lögin „Bundinn fastur“ og „Minn hinsti dans“ með Páli, leggur til 4 lög á plötunni, og Örlygur Smári og Niclas Kings eiga einnig 4 lög.

01 Partí fyrir tvo
02 Allt fyrir ástina
03 International
04 Er þetta ást?
05 Kraftaverk
06 Komdu til mín
07 Þú komst við hjartað í mér
08 Penisillín
09 Betra líf
10 Nú passar allt
11 Einhver elskar mig

LJÓSIN HEIMA

2003

Þetta er hreinræktuð jólaplata frá Páli Óskari og Móniku þar sem þau leggja áherslu á hátíðleg og falleg jólalög, íslensk sem erlend.

01 Ég höfði lýt á jólanótt
02 Ég vona að það verði í dag
03 Með bæninni kemur ljósið
04 Himnaganga
05 Hin fyrstu jól
05 Come again
06 Þú litla barn
07 Jólakvöld
08 Hin fegursta rósin er fundin
09 Betlehemsstjarnan
10 A spaceman came travelling
11 Ást við fyrstu sýn
12 Yndislegt líf

EF ÉG SOFNA EKKI Í NÓTT

2001

Páll Óskar baritón & Monika Abendroth hörpuleikari leiða hér saman hesta sína á fallegustu plötu ársins 2001. Hér flytja þau tónsmíðar Hreiðars Inga Þorsteinssonar og Karls Olgeirs Olgeirssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar, Shakespeares o.fl. auk þess sem Burt Bacharach og Carole King kíkja aðeins í heimsókn. Öll lögin eru svo útsett fyrir baritón, hörpu og strengjasveit sem Sigrún Eðvaldsdóttir leiðir. Útkoman er eins og að fara í heitt bað og láta nudda sig á meðan!

01 Hugleiðing
02 My lagan love
03 Ó, hvílíkt frelsi
04 Harpan
05 Poor wayfaring stranger
06 This girl’s in love with you
07 Sonnetta 54
08 Þeim vörum sem ég kyssti
09 Up on the roof
10 Næturljóð
11 So this is goodbye
12 Seinni hugleiðing

Þetta er nú meiri vitleysan

2001

Sumarsmellurinn 2001 með öllum stórsöngvurum Milljónamæringanna. Raggi Bjarna, Stebbi Hilmars, Páll Óskar, Bjarni Ara og Bogomil Font fara á kostum á frábærri plötu. Inniheldur Smells like teen spirit, Ég sá þig og önnur mannbætandi lög. Millarnir hafa breiða skírskotun og höfða til allra aldurshópa.

Deep Inside Paul Oscar

1999

Safarík sólóplata frá Páli Óskari frá árinu 1999. Troðfull af frumsömdum smellum. Platan er litríkur óður til lífsins, sem nær yfir allan tilfinningaskalann, með kímnigáfu og hæfileika Páls Óskars í fararbroddi. Þarft innlegg í rafræna popptónlist á Íslandi. Taktu Pál Óskar með þér í partíið….eða rúmið! – Góða Skemmtun.

ALLUR PAKKINN

1999

Safnplata með Millunum. Bogomil Font, Páll Óskar, Stefán Hilmars, Raggi Bjarna, Bjarni Ara og Ástvaldur Traustason eru söngvararnir sem koma við sögu. Öll vinsælustu lögin, t.d. Marsbúar, Negro Jose, Quando Quando, Kaffi til Brasilíu ásamt einu glænýju lagi, Hún var með dimmblá augu, sem Raggi Bjarna syngur af alkunnri snilld.

Stereo – Páll Óskar og Casino

1998

Á plötunni Stereo með Páli Óskari og Casino taka þeir erlend lög sem flestir þekkja, eftir menn eins og Burt Bacharach, Henry Mancini og Serge Gainsbourg. Eitt lag er íslenskt, Herbalife, eftir Samúel Jón og er tileinkað Herb Albert.

Abbababb!

1997

Dr. Gunni var kannski ekki þekktastur fyrir að flytja barnalög, en hér bregður hann á leik og fær til liðs við sig jafn ólíka listamenn og Heiðu, Möggu Stínu, Rúnar Júlíusson, Pál Óskar og Skapta Ólafsson. Eins og Dr. Gunna er von og vísa fer hann ekki troðnar slóðir, platan hefur engu að síður fengið góða dóma fyrir frumleika og skemmtilegheit og nægir að nefna hið umdeilda lag Prumpufólkið því til sönnunar. Á þessari plötu söng Páll Óskar lagið um Dodda draug.

Minn hinsti dans

1997

Smáskífan með Eurovisionlagi Páls Óskars.

Seif

1996

Þetta var fyrsta sólóplata Páls Óskars Hjálmtýssonar í heil þrjú ár, þegar hún kom út 1996. Meðla laga er diskósmellurinn Stanslaust stuð.

PALLI

1995

Gullfalleg sólóplöta frá 1995 sem brætt gæti hvert mannshjarta á aldrinum 8 – 88. Enn ein rós í hnappagat Páls Óskar.

Milljón á mann

1994

Páll Óskar og milljónamæringarnir. Páll Óskar tók við míkrafóninum af Bogomil Font og gerðist söngvari Milljónamæringanna í október 1993. Þessi fyrsta plata þeirra kom út sumarið 1994 og innhélt m.a. Negro José og Speak up mambo.

Stuð

1993

Fyrsta sólóplata Páls Óskars. Unnin í slagtogi við Jóhann Jóhannsson og Sigurjón Kjartansson sem báðir voru meðlimir í hljómsveitinni HAM. Kom út nóvember 1993 og innheldur m.a. TF stuð og Ljúfa líf.

MINNINGAR

1991

Pétur Kristjánsson bað Pál Óskar um að syngja þrjár dægurperlur á þessari plötu: “Yndislegt líf” (What a wonderful world), “Til eru fræ” (sem Palli lenti í 3. sæti með í Söngkeppni Framhaldsskólanna) og “Þrek og tár” sem dúett með Maríu Björk.  Hér rifja valinkunnir söngvarar upp nokkrar helstu dægurlagaperlur síðari ára, áratuga og jafnvel alda, innlendar sem erlendar. Sigrún Hjálmtýsdóttir söng þarna í fyrsta sinn á plötu Vögguvísu úr Silfurtunglinu (Hvert örstutt spor) og Ave Maria eftir Schubert og Erna Gunnarsdóttir Augun þín, íslenska þýðingu á Only love.  Platan rokseldist og Palli fékk sína fyrstu gullplötu jólin 1991.

Rocky horror – Söngleikur MH (1991)

1991

Söngleikurinn ROCKY HORROR var sýndur í uppfærslu Leikfélags MH í gamla góða IÐNÓ í janúar 1991.  Leikstjóri var Kolbrún Halldórsdóttir en íslensku þýðinguna á verkingu gerði Veturliði Guðnason.  Í þessari leiksýningu lék Páll Óskar aðalhlutverkið Frank-N-Furter og vakti athygli þjóðarinnar.  Segja má að þessi sýning hafi orðið upphafið af fullorðins-ferli Palla.

Sýningarnar urðu rúmlega 30 talsins og uppselt á þær allar.  Leikfélag MH varð að hætta sýningum vegna þess að IÐNÓ lokaði dyrum sínum og framkvæmdir hófust í húsinu, enda var það að hruni komið.  Rocky Horror var því síðasta leiksýningin sem sýnd var í húsinu eins og það leit út sem húsnæði Leikfélags Reykjavíkur.   Pétur Kristjánsson, poppari, gaf svo út tónlistina á vinylplötu og geisladiski samhliða í mars 1991 undir merkjum PS:Músik.

OG ÞAÐ VARST ÞÚ (1984)

1984

“OG ÞAÐ VARST ÞÚ” er virkilega vönduð barnaplata sem Jónas Þórir og Sverrir Guðjónsson höfðu yfirumsjón með, en Skálholt gaf út.  Páll Óskar (14 ára) söng nokkur lög á þessari plötu eins og t.d. “Er vasapening ég fæ” (sem hægt er að hlusta á hér á vefnum) og “Í bljúgri bæn”.

Þetta eru síðustu hljóðritanir sem til eru af barnarödd Palla, því stuttu eftir upptökur fór hann í mútur og hann söng nákvæmlega ekkert fyrr en hann fór í inntökupróf í Kór Menntaskólans í Hamrahlíð 1988.

Þessi plata var endurútgefin á geisladiski af Skálholtsútgáfunni árið 2010.

ÉG KVEÐJU SENDI HERRA – ÁHÖFNIN Á HALASTJÖRNUNNI (1983)

1983

“ÉG KVEÐJU SENDI HERRA” var önnur platan sem Páll Óskar söng inn á sem meðlimur Áhafnarinnar á Halastjörnunni.  Þessi plata kom út árið á vegum Geimsteins 1983, öll lög og textar voru eftir Gylfa Ægisson og Palli (13 ára) söng tvö lög: “Til ömmu” og “Blindi drengurinn”, en seinna lagið varð fyrsti risasmellur Palla í útvarpi og heyrðist mikið í Óskalögum Sjúklinga.

Eftir að Palli varð þekktari á fullorðinsárunum hefur “Blindi Drengurinn” oft verið grafinn upp og spilaður í hinum ýmsu útvarpsþáttum.  Hægt er að hlusta á þetta lag með því að smella á tónlistarhnappinn hér á www.palloskar.is

Þorskurinn á framhlið plötuumslagsins er bein tilvísun í ummæli þekkts stjórnmálamanns frá þessum tíma sem sagði að íslenski þorskurinn væri okkar besti sendiherra.   Þá vitið þið það.

STÍGVÉLAÐI KÖTTURINN (1983)

1983

Páll Óskar (13 ára) lék stígvélaða köttinn i söngleikjaútgáfu Gylfa Ægissonar árið 1983.

Núna eru öll lögin sem Palli söng í þessum ævintýrasöngleik komin inn á www.palloskar.is þar sem þau streyma ókeypis. Farið bara í “TÓNLIST”, veljið lög, ýtið á “play” og góða skemmtun. Þessir söngleikir hjá Gylfa Ægissyni voru líka algert æði og standast tímans tönn

Geimsteinn gaf vinylplötuna seinna út á geisladiski en þá mátti þar líka finna söguna um Eldfærin og Kiðlingana sjö í sömu útfærslu.

SÖNGLEIKURINN “GÚMMÍ TARZAN” – LEIKFÉLAG KÓPAVOGS (1982)

1982

Páll Óskar (12 ára) lék aðalhlutverkið í söngleiknum GÚMMÍ-TARZAN sem leikfélag Kópavogs sýndi fyrir fullu húsi 1982 til 1983.  Kjartan Ólafsson samdi tónlistina, en leikgerðina vann Jón Hjartarson uppúr vinsælli skáldsögu Ole Lund Kirkegard.  Andrés Sigurvinsson leikstýrði.

Söngleikurinn er um Ívar Ólafsson, strák sem er lagður í einelti, og er beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi, og það ekki bara af skólafélögum sínum.  Pabbi hans beitir hann líka andlegu ofbeldi þegar heim er komið og er alltaf snarvitlaus í skapinu.  Ástæðan er sú að Ívar Ólafsson er lélegur í fótbolta, er ekki sterkur, lágvaxinn, lesblindur og stendur sig illa í skólanum.  Þegar hann slasar sig í leikfimi og fær blóðnasir er hann uppnefndur “Gúmmí-Tarzan” af öllum í skólanum og nafnið festist við hann.  Dag einn hittir Gúmmí-Tarzan alvöru galdranorn, sem býður honum að velja sér eina ósk.  Gúmmí-Tarzan segir: “Ég óska þess að ég fái allar mínar óskir uppfylltar.”   Nornin segist ekki geta látið svona risa-ósk endast nema í einn dag.  Gúmmí-Tarzan tekur boðinu.

Söngleikurinn var sýndur á tímabilinu 1982 til 1983.   Á þeim tíma var orðið “einelti” varla  notað í íslenskri tungu.  Í dag er alveg ljóst að þetta verk er svo sannarlega um einelti, og á því brýnt erindi við áhorfendur í dag, ekki síður en það gerði árið 1982.   Tónlistin var tekin upp og gefin út á vinyl plötu, en hún hefur enn ekki verið gefin út á geisladiski eða stafrænu formi.  Þegar þetta er skrifað þá stendur það allt til bóta.

 

VIÐ JÓLATRÉÐ (1981)

1981

VIÐ JÓLATRÉÐ var stór og vönduð íslensk jólaplata með diskótakti, enda sat Gunnar Þórðarsson við stjórnvölinn og tók plötur upp í gríð og erg í Hljóðrita í Hafnarfirði.   Þessi jólaplata var tekin upp á samhliða meistaraverkinu “Himinn og jörð”, svo það var mikill hasar í Hljóðrita á þessu tímabili.

Þessi jólaplata innihélt öll gömlu góðu jólalögin sem íslendingar hafa sungið í kringum jólatréð (Nú er Gunna á nýju skónum, Göngum við í kringum o.s.frv.) nema hvað að öll  lögin voru flutt í syrpum með diskótakti, eins og var mjög vinsælt form á þessum tíma í anda Stars on 45.    Einnig voru þarna stök lög úr smiðju Gunnars Þórðarsonar, ítölsk tökulög og grín-jólalög sem flutt voru af jólasveinum og krökkum.

Söngvaranir voru allar helstu stórstjörnur þessa tíma: Björgvin Halldórsson, Helga Möller, Þorgeir Ástvaldsson, Magnús Ólafsson… og þarna sprettur fram eitt stykki Páll Óskar, þá 11 ára gamall.       Vinylplatan var glær, ekki svört.  Þessi plata varð mest selda jólaplatan árið 1981, en hún hefur samt aldrei komið út á geisladiski í heild sinni.   Aðeins hafa sumar syrpurnar dúkkað upp á hinum og þessum jólasafnplötum.

Sjálfur Björgvin Halldórsson hannaði plötuumslagið.

EINS OG SKOT – ÁHÖFNIN Á HALASTJÖRNUNNI (1981)

1981

Eftir velgengni Söngævintýrsins um Hans & Grétu hafði Gylfi Ægisson aftur samband við Palla og bauð honum að vera messagutti um borð í Halastjörnunni.   Þarna var Áhöfnin á Halastjörnunni, ásamt Gylfa Ægissyni, eitt það heitasta í bransanum vegna fyrstu plötu hennar “Meira salt”, sem innihélt hið gríðarlega vinsæla “Stolt siglir fleyið mitt”.

Á þessari Halastjörnuplötu “Eins og skot”, söng Palli (11 ára) eitt lag, Sonur Sjómannsins.  Það hlaut ágætar viðtökur í Óskalagaþætti sjómanna “Á frívaktinni”, enda voru flest lögin af þessari plötu klæðskerasniðin fyrir þann útvarpsþátt.   Þú getur hlustað á “Son sjómannsins” með því að smella á hnappinn “Tónlist” hér á þessari heimasíðu.

 

Söngævintýrið Rauðhetta & Hans og Gréta

1980

Þetta er fyrsta platan sem Páll Óskar söng inná þá tíu ára gamall. Hún var gefin út af Geimsteini árið 1980. Gylfi Ægisson hafði samið söngleiki út frá hinum þekktu Grimmsævintýrum Hans og Grétu og Rauðhettu. Þarna var Palli í hlutverki Hans.  Þessi plata varð upphafið að farsælu samstarfi Palla og Gylfa Ægissonar. Fleiri plötur fylgdu í kjölfarið.